Talan er!

talan er
Tala er skrifuð upp á töflu og búin til dæmi

Vinkona okkar minnti okkur á þetta verkefni um daginn. Það er auðvelt að grípa í það, krefst ekki mikils undirbúnings og mögulegt að framkvæma það á ýmsa vegu fyrir alla aldurshópa. Við skrifum tölu upp á töflu og krakkarnir búa til dæmi í reikningsbókina sína. Gott er að setja tvö til þrjú sýnidæmi með tölunni á töfluna, það hjálpar sumum nemendum að byrja. Við hvetjum þau til að nota hjálpargögn s.s. kubba, talnagrind eða peninga til að átta sig á tölunum og hvernig dæmi hægt er að búa til.

Þetta verkefni hentar mjög vel í þegar nemendur eru  að koma á mismunandi tímum inn í kennslustund eins og eftir matartíma, íþróttir eða í stuttri kennslustund (20 mín). Oft bjóðum við þeim sem vilja koma og deila sínum dæmum með bekkjarfélögunum upp á töflu. Við köstum stundum teningum til að fá upp töluna sem við ætlum að nota, einnig finnst krökkunum mjög gaman að kasta teningum sjálf og fá þannig tölu til að vinna með.

Talið í bakka

Bakkana hér á myndinni fyrir neðan höfum við notað mikið í ýmiskonar talningaverkefni. Nú í haust hefur 1. bekkur verið að æfa talningu upp í 20. Við höfum einnig notað þá í samlagningu þar sem nemendur eru með tvo bakka, kasta töppum í þá og leggja svo saman tölurnar þar sem tapparnir lenda. Þetta höfum við líka útfært á sama hátt með margföldun. Bakkana fengum við í matvöruverslun og eru þeir undan mjólkurvörum hringina með tölustöfunum frá 1 – 26, má nálgast hér.

img_0165
Hér er verið að telja kubba og pallíettur.

Samlagning með spilum

Það verður allt einhvern veginn meira spennandi þegar það má draga. Við höfum notað spilastokkinn mikið og hér erum við að leggja saman með aðstoð spilanna. Í byrjun drógu krakkarnir tvö spil og lögðu saman. Með því að telja táknin á hverju spili verður samlagningin auðveldari.

IMG_0140
Nemendur drógu tvö spil og lögðu þau saman.

Þegar lengra var haldið og tugirnir voru komnir til sögunnar drógu þau tvö spil og bjuggu til tölu úr þeim og síðan aftur tvö. Að lokum lögðu þau svo þessar tvær tölur saman.

IMG_0143
Hér eru tölurnar 28 og 47 lagðar saman.

Verkefnið var notað í hringekju og oftast unnu nemendur tveir og tveir saman.