Hér er komið myndband um Fúsa Plús. Hann má finna í ýmsum útgáfum á netinu undir nafninu Gus the Plus. Við höfum notað hann við innlagnir á samlagningu, t.d. í fyrsta bekk og svo notað sögu hans til upprifjunar í öðrum bekk.
Fúsi Plús upp á vegg hjá okkur.
Þegar við sögðum krökkunum söguna af Fúsa Plús vorum við búnar að búa okkar eigin Fúsa til, til þess að hafa upp á vegg. Krakkarnir teiknuðu svo líka myndir af honum og skrifuðu orð sem tengjast samlagningu.
Eftir eitt verkefni áttum við eftir marga pappírsrenninga úr kartoni og datt okkur í hug að búa til ,,hornamæla” úr þeim. Gerð voru göt í annan endan og sett splitti þar í gegn svo hægt væri að hreyfa mælana.
Við teiknuðum mismunandi horn á blöð; rétt, hvöss og gleið og festum upp á vegg. Krakkarnir löbbuðu svo á milli myndana og mældu hornin með ,,hornamælunum”
í einskonar stærðfræði sóknarskrift.
Þau voru með reiknisbókina sína og skrifuðu hvort hornin sem þau mældu væru rétt, gleið eða hvöss í bókina.
Við gerðum líka form þar sem nokkur horn voru mæld. Þeir sem kláruðu áður en tíminn var búinn mældu svo hin ýmsu horn sem þeir fundu á ganginum hjá okkur.
Núna erum við að læra um klukkuna og þá nýtum við okkur púslhugmyndina frá því áður. Notaðir eru þrír púslbitar, tímasetning skrifuð í miðjuna með bókstöfum og tímasetningar tölvuklukku að morgni og eftir hádegi.
Púslið er sett í nokkra poka og eru um 9 tímasetningar í hverjum þeirra. Við setjum lítil merki í hornin, t.d. kross og hringi, svo við vitum í hvaða poka bitarnir sem finnast á gólfinu eiga að vera.
Hér er skemmtilegt spil sem við sáum á netinu. Spilið er þannig að tveir spila saman og eru með óútfyllta hundraðtöflu og sitt hvorn litinn. Leikmenn skiptast á að skrifa tölu inn í töfluna og þarf að setja hana á réttan stað í töflunni. Þegar fjórar tölur í sama lit eru komnar í röð fær sá með þann lit eitt stig. Haldið er áfram þangað til búið er að fylla út alla töfluna. Einnig er hægt að nota þriggja stafa tölur. Spilið er góð æfing í því hvernig töflurnar eru byggðar upp og til að æfa krakkana í að hoppa áfram og aftur á bak um heila tugi.
Hér eru verkefnablöð (blöðin má nálgast neðst í þessari færslu) sem við gerðum þegar við vorum að æfa okkur að leggja saman heila tugi. Öll dæmin fara yfir 100 og hvöttum við krakkana til að nota ,,aðstoðarmenn” við vinnuna. Margir völdu að nota kubba við vinnuna.
Hér eru tugastangirnar notaðar til að telja áfram.
Krakkarnir notuðu kubbana á mismunandi vegu. Sumir notuðu kubbana fyrir báðar tölurnar og aðrir notuðu þá til að telja áfram frá hærri tölunni.
Hér voru teiknuð strik í stað kubba.
Aftan á blaðinu var verkefni þar sem krakkarnir lásu þriggja stafa tölur og skrifuðu niður.
Lesið og skrifað.
Við gerðum annað verkefni þar sem þau byrjuðu á því að leggja saman einingar, tugi og svo hundruð. Í þessu verkefni kviknaði á nokkrum ljósaperum þegar þau sáu samhengið á milli talnanna. Þegar verið er að leggja saman heila tugi og hundruð er oft nóg að leggja saman fremstu tölurnar og bæta svo núlli eða núllum aftan við.
Þessi spjöld gerðum við upphaflega fyrir búðarleik sem sagt er frá í annarri færslu hérna á síðunni. Þau hafa reynst okkur vel og hægt er nýta þau á margvíslegan hátt og einnig vekja leikföngin áhuga hjá börnunum. Við útbjuggum okkar spjöld sjálfar og plöstuðum en það gæti verið gaman að fá krakkana í lið með sér og þau búa sjöldin til sjálf. Þau æfa sig að klippa og þjálfa fínhreyfingar í leiðinni.
Hér notum spjöldin í samlagningu, nemendur draga tvö spjöld og nota peninga við að leysa dæmið.
Upphaflega voru spjöldin gerð með tveggja stafa tölum en þegar við fórum að vinna með þriggja stafa tölur gerðum við nýja miða með hærri upphæðum. Nýju miðarnir voru svo festir á spjöldin með kennaratyggjói. Miðana má nálgast undir myndunum hér fyrir neðan.
Í þessu verkefni voru krakkanir að æfa sig með peninga og finna rétta upphæð úr peningakassanum. Þau voru þá tvö saman með nokkur spjöld og lögðu rétta upphæð á spjaldið.
Hér eru sömu spjöld en búið að setja hærri upphæðir á þau. Verkefnið er það sama að finna rétta upphæð úr peningakassanum. Við höfum bæði notað þetta verkefni á stöð í hringekju en þetta er einnig gott aukaverkefni til að grípa í þegar einhver klárar verkefni.