Hér fyrir neðan eru verkefnablöð í margföldun. Þetta eru tvennskonar verkefni; blöð með hefðbundnum margföldunardæmum og svo satt og ósatt verkefnablöð. Þar klippa krakkarnir út dæmin, reikna og líma þau svo í þann dálk sem á við. Hér má finna fleiri satt og ósatt verkefni.
Bakkana hér á myndinni fyrir neðan höfum við notað mikið í ýmiskonar verkefni og fannst okkur tilvalið að nota þá í margföldun. Bakkana fengum við í matvöruverslun og eru þeir undan mjólkurvörum og hringina með tölustöfunum frá 1 – 26 má nálgast hér.
Í verkefnið þarf tvo bakka og svo tölur fá 1 – 10, tvo tappa, kubba og eitthvað til að skrifa á. Krakkarnir byrja að kasta tveimur töppum í bakkana og margfalda svo saman tölurnar sem tapparnir lentu á. Við notuðum litar tússtöflur sem við eigum til að skrifa á.
Við erum að byrja í margföldun þannig við hvöttum krakkana til að finna sér leið að svarinu, hér er tússtaflan notuð til að teikna leiðina að lausninni.
Hér er svo farin sú leið að nota kubba sér til aðstoðar en nota töfluna til að skrifa upp dæmið. Okkur fannst það að nota tússtöflurnar skemmtileg tilbreyting og gera verkefnið meira spennandi. Við notuðum verkefnið á stöð í hringekju og unnu tveir saman.
Bakkana hér á myndinni fyrir neðan höfum við notað mikið í ýmiskonar talningaverkefni. Nú í haust hefur 1. bekkur verið að æfa talningu upp í 20. Við höfum einnig notað þá í samlagningu þar sem nemendur eru með tvo bakka, kasta töppum í þá og leggja svo saman tölurnar þar sem tapparnir lenda. Þetta höfum við líka útfært á sama hátt með margföldun. Bakkana fengum við í matvöruverslun og eru þeir undan mjólkurvörum hringina með tölustöfunum frá 1 – 26, má nálgast hér.
Kahoot er vefsíða þar sem hægt að útbúa allskyns spurningaleiki á auðveldan hátt. Margir geta spilað saman í einu og notuð eru snjalltæki. Við í Stærðfræðistofunni erum með leiki inni á Kahoot sem allir geta nálgast. Það þarf að ná sér í notendanafn til að skrá sig inn, það er mjög fljótlega gert. Sá sem stjórnar leiknum (kennarinn) fer inn á síðuna create.kahoot.com og er tengdur við skjávarpa svo að þátttakendur sjái spurningarnar. Þátttakendur (nemendur) fara þá inn á kahoot.it. Til að nota okkar leiki er hægt að leita eftir ,,staestofan”, stærðfræði eða eftir efnisflokkum t.d. margföldun og samlagning. Við höfum hér útbúið leiðbeiningar fyrir þá sem hafa ekki prófað Kahoot áður:
Hér á myndinni fyrir neðan var leitað eftir orðinu margföldun og komu þá upp tveir leikir.
Viðmót stjórnanda, ýtt er á play til að spila leik.Þegar búið er að velja verkefni kemur upp mynd þar sem valið er annað hvort Classic eða Team mode, við höfum notað classic og eru 2 – 3 saman með eitt tæki.
Viðmót stjórnanda og þátttakanda er ekki það sama. Stjórnandinn er með tölvuna sína tengda við skjávarpa. Næst kemur upp tala sem þátttakendur nota til að skrá sig til leiks. Þátttakendur fara inn á síðuna kahoot.it þar sem pin-númerið fyrir leikinn er skráð inn. Hver hópur velur næst nafn fyrir lið sitt og þegar það er komið birtast nöfn liðanna á skjánum hjá stjórnandanum. Hér fyrir neðan má sjá að Stærðfræðistofa hefur skráð sig inn. Þegar öll lið eru mætt til leiks ýtir stjórnandinn á start hjá sér.
Pin-númerið fyrir leikinn.
Nemendur slá inn pin-númer fyrir leikinn og búa svo til nafn á liðið sitt.
Þegar leikurinn byrjar birtist spurningin í stuttan tíma.
Næst kemur spurningin upp með fjórum svarmöguleikum fyrir þátttakendur. Einnig má sjá hversu margir eru búnir að svara hverju sinni og þá tímann sem eftir er.
Hér sjá þátttakendur svarmöguleikana.
Þátttakendur eru með snjalltæki og velja þar þá mynd sem þeir halda sé rétt svar.
Viðmót þátttakenda í snjalltæki.
Þegar allir hafa svarað kemur upp mynd sem sýnir hve margir völdu hvaða valmöguleika.
Hér má sjá dreifingu svara.
Gefin eru stig fyrir rétt svör og einnig fyrir hversu fljótt þátttakendur svara, birtist þá listi með fimm efstu þátttakendunum áður en farið er í næstu spurningu.
Hér var aðeins einn þátttakandi svo hann var að sjálfsögðu efstur.
Nemendur höfðu verulega gaman að þessum leik og var mikið fjör í stofunni. Allur hópurinn spilaði saman og voru 2 – 3 saman í liði. Þessi leikur gæti einnig hentað á stöð í hringekju og væri þá einn nemandi stjórnandi hverju sinni.
Þessa vikuna erum við að vinna með margföldun. Þetta skemmtilega kast-verkefni er á einni stöð í hringekju hjá okkur. Það er frekar einfalt í framkvæmd, það þarf eitt ílát og 10 bolta fyrir hvern hóp sem í eru 2 – 3 krakkar.
Karfa og 10 boltar, 2 – 3 nemendur saman í hóp.
Unnið er með margföldun frá 1 – 10. Sá sem byrjar kastar 10 boltum og reynir að hitta þeim ofan í körfu. Eftir það er margfeldið af boltunum sem fóru ofan í körfuna skrifað niður, sem dæmi má nefna að í fyrstu umferð hittir nemandi 6 boltum í körfuna þá skrifar hann 6 x 1 í bókina sína. Í næstu umferð er margfaldað með 2 og svo koll af kolli. Hver skrifar í sína bók eða á blað. Þegar búnar eru 10 umferðir reiknar hver og einn út stigin sín.
Hér eru búnar 10 umferðir.
Auðvelt er að flytja verkefnið út í góða veðrið og þá jafnvel nota krít til að skrá margfeldið og reikna.
Hér erum við komin út í góða veðrið.
Ein útgáfan í viðbót er að kríta hringi eða jafnvel nota húllahringi til að kasta inn í.
Við höfðum fengið gefins álpappír og notuðum hann í boltana okkar en ein hugmynd er að sækja pappír í endurvinnslukassann og útbúa bolta úr pappír.