Hér fyrir neðan eru verkefnablöð í margföldun. Þetta eru tvennskonar verkefni; blöð með hefðbundnum margföldunardæmum og svo satt og ósatt verkefnablöð. Þar klippa krakkarnir út dæmin, reikna og líma þau svo í þann dálk sem á við. Hér má finna fleiri satt og ósatt verkefni.
Í geymslunni í skólanum hjá okkur duttum við í lukkupottinn og fundum við þessi brotaspjöld sem fylgdu með bókinni Geisla fyrir einhverjum árum. Þetta eru hinar ýmsu stærðir og mismikið af hverju broti. Hægt er að nálgast brotahringi í verkefnahefti sem fylgir Sprota 4b og eru hringirnir í hluta 2.
Við settum mismikið af hverju broti í umslag og krakkarnir röðuðu þeim svo í rétta stærðarröð. Þá var aðeins horft á brotið ½ ¼ o.s.f.v. en brotin ekki lögð saman strax.
Í lokin settu þau brotin upp í bókina sína og notuðu rúðurnar og lögðu saman. Þetta var verkefni á stöð í hringekju og byrjun á okkar vinnu með almenn brot.
Í vinnu með form, hvort sem það eru tví- eða þrívíð form er gaman að nota tangram. Við vorum að vinna með þrívíð form og var tangram á einni stöð í stærðfræði hringekju hjá okkur. Mögulegt er að nálgast tangram í verkefnaheftum með Sprota 3b og Sprota 4b.
Við ljósrituð þau á karton.
Myndir til að púsla eftir saman má finna á netinu með því að leita eftir tangram puzzle template. Myndirnar eru bæði með formunum sýnilegum en einnig líka það sem formin sjást ekki, við vorum með bæði og gátu krakkarnir þá valið hvernig þau unnu verkefnið. Stöðin var mjög vinsæl og voru krakkarnir spenntir að taka tangramið með sér heim en allir klipptu út sitt eigið.
Þessa vikuna erum við að vinna með margföldun. Þetta skemmtilega kast-verkefni er á einni stöð í hringekju hjá okkur. Það er frekar einfalt í framkvæmd, það þarf eitt ílát og 10 bolta fyrir hvern hóp sem í eru 2 – 3 krakkar.
Karfa og 10 boltar, 2 – 3 nemendur saman í hóp.
Unnið er með margföldun frá 1 – 10. Sá sem byrjar kastar 10 boltum og reynir að hitta þeim ofan í körfu. Eftir það er margfeldið af boltunum sem fóru ofan í körfuna skrifað niður, sem dæmi má nefna að í fyrstu umferð hittir nemandi 6 boltum í körfuna þá skrifar hann 6 x 1 í bókina sína. Í næstu umferð er margfaldað með 2 og svo koll af kolli. Hver skrifar í sína bók eða á blað. Þegar búnar eru 10 umferðir reiknar hver og einn út stigin sín.
Hér eru búnar 10 umferðir.
Auðvelt er að flytja verkefnið út í góða veðrið og þá jafnvel nota krít til að skrá margfeldið og reikna.
Hér erum við komin út í góða veðrið.
Ein útgáfan í viðbót er að kríta hringi eða jafnvel nota húllahringi til að kasta inn í.
Við höfðum fengið gefins álpappír og notuðum hann í boltana okkar en ein hugmynd er að sækja pappír í endurvinnslukassann og útbúa bolta úr pappír.
Þegar nemendur voru að vinna með peninga í vetur þá útbjuggum við þetta spil. Hugmyndin kemur úr kennsluleiðbeiningunum úr Sprota en við útfærðum það á okkar hátt.
Spilið gengur þannig fyrir sig að nemendur fylla sparigrísinn sinn með ákveðinni upphæð. Notaðir eru þrír teningar í mismunandi litum, nemendur ákveða hvaða litur táknar hundruð, tugi og einingar.
Hér hefur nemandi fengið 242 og fjarlægir því 242kr. úr sparibauk mótspilara.
Teningunum er kastað og sá sem kastaði fjarlægir þá upphæð sem teningarnir segja til um úr sparibauk mótspilara. Upphæðin fer ekki í annan sparigrís heldur er hún lögð til hliðar. Sá tapar sem fyrr er með tóman grís. Við fundum grísina með því að google með því að slá inn “piggy bank template”