
Vinkona okkar minnti okkur á þetta verkefni um daginn. Það er auðvelt að grípa í það, krefst ekki mikils undirbúnings og mögulegt að framkvæma það á ýmsa vegu fyrir alla aldurshópa. Við skrifum tölu upp á töflu og krakkarnir búa til dæmi í reikningsbókina sína. Gott er að setja tvö til þrjú sýnidæmi með tölunni á töfluna, það hjálpar sumum nemendum að byrja. Við hvetjum þau til að nota hjálpargögn s.s. kubba, talnagrind eða peninga til að átta sig á tölunum og hvernig dæmi hægt er að búa til.
Þetta verkefni hentar mjög vel í þegar nemendur eru að koma á mismunandi tímum inn í kennslustund eins og eftir matartíma, íþróttir eða í stuttri kennslustund (20 mín). Oft bjóðum við þeim sem vilja koma og deila sínum dæmum með bekkjarfélögunum upp á töflu. Við köstum stundum teningum til að fá upp töluna sem við ætlum að nota, einnig finnst krökkunum mjög gaman að kasta teningum sjálf og fá þannig tölu til að vinna með.