Hér er skemmtilegt spil sem við sáum á netinu. Spilið er þannig að tveir spila saman og eru með óútfyllta hundraðtöflu og sitt hvorn litinn. Leikmenn skiptast á að skrifa tölu inn í töfluna og þarf að setja hana á réttan stað í töflunni. Þegar fjórar tölur í sama lit eru komnar í röð fær sá með þann lit eitt stig. Haldið er áfram þangað til búið er að fylla út alla töfluna. Einnig er hægt að nota þriggja stafa tölur. Spilið er góð æfing í því hvernig töflurnar eru byggðar upp og til að æfa krakkana í að hoppa áfram og aftur á bak um heila tugi.
Hjá okkur eru nokkur púsluspil sem ekki eru í mikilli notkun og vantar jafnvel einhverja bita inn í. Á Pinterest eru hugmyndir hvernig mögulegt að nota púsluspil á annan máta en að púsla saman myndinni. Tugir og einingar eru t.d. teiknaðar á einn púslbita og svo finnur þú töluna á öðrum bita og púslar saman, reiknisdæmi á einum púslbita og útkoman á öðrum og svo má líka púsla saman há og lágstafi í íslensku.
Ein röð úr púslinu.
Okkar hugmynd útfærðum við þannig að við notuðum þriggja stafa tölur og skrifuðum aftan á púslið. Tölurnar eru ekki í réttri röð, heldur á víð og dreif frá 90 – 1000, það er byrjað á minnstu tölunni fremst og svo þarf að finna næstu tölu og svo koll af kolli og stærsta talan kemur aftast.
Tvær raðir úr púslinu.
Við gerðum líka tvær raðir og er þá púslað út á enda og svo haldið áfram í næstu línu fyrir neðan. Það er ekkert ákveðið bil á milli talnana í þessu verkefni en það er hugmynd er að láta tölurnar hækka um t.d. 10 eða hundrað á milli púslbita.
Sá möguleiki er líka að krakkarnir gætu útbúið svona verkefni sjálf með ákveðnu bili á milli talnana. Gott ráð er að geyma hverja röð fyrir sig í umslagi eða zip-lock poka svo púslbitarnir ruglist ekki. Við notuðum verkefnið á stöð í hringekju á samt 100 töflu púslum og má finna færslu um þau hér.
Þegar við vorum að byrja vinnu með þriggja stafa tölur notuðum við þessi hundraðtöflupúsl.
Hundraðtöflur sem búið er að klippa niður.
Við fundum töflur frá 0 og upp í 1000 hér og klipptum þær svo niður. Nemendur að púsluðu svo töflunum saman aftur.
Búið að púsla töflunum saman aftur.
Gott er að ljósrita þær á karton og hafa þær í mismunandi litum, þannig er betra að flokka þær ef eitthvað blandast saman. Það er líka hægt að púsla ofan á hundraðtöflu sem ekki er búið að klippa niður. Verkefnið var unnið á stöðvum í hringekju.