Komin eru fleiri verkefni í Litlu lestrarhestana. Þetta eru lesskilningsverkefni fyrir 1. – 2. bekk og eru einfaldir textar og spurningar sem svarað er eftir lesturinn. Verkefnin eru sett upp á þrjá mismunandi vegu þ.e. krossaspurningar, velja rétta orðið inn í málsgrein og svo skriflegt svar. Hægt er að nálgast verkefnin til útprentunar hér .
Verkefnin voru unnin með styrk úr Þróunarsjóði grunnskólanna í Garðabæ.
Við höfum verið að vinna í nýju bókinni Stærðfræðispæjararnir1 sem kom út í haust hjá Menntamálastofnun. Í kafla 3 um reikning eru blaðsíður með vasareikni. Þessi vinna vakti mikla lukku og áhuga svo við ákváðum að æfa okkur meira.
Hér fyrir neðan eru tvö verkefni. Fyrra verkefnið hentar þeim sem eru óvanir að nota vasareikni og þurfa aðeins að átta sig á hvernig hann er notaður. Þegar við byrjuðum lékum við okkur aðeins og þau prufðu að slá inn fullt af tölum svo æfðum við okkur á að hreinsa og fá 0. Þegar við byrjuðum að reikna teiknuðum við reiti upp á töflu, jafnmarga og takkana sem ýta þurfti á. Því næst settum við tölur og tákn inn í reitina og prufuðum saman. Gott er að byrja á því að leggja saman tvær tölur undir 10 þ.e. að þurfa ekki að ýta á tvo takka á vasareikninum til að búa til tölu t.d. að ýta á 1 og 3 til að búa til töluna 13. Það sem við rákum okkur á er að minna á að ýta á = til að fá útkomuna og að hreinsa skjáinn til að fá 0 áður en við byrjum á næsta dæmi. Sumir áttu það til að ruglast á því hvort það væri talan 2 eða 5 sem væri á skjánum og getur þá hjálpað til að skoða tölurnar á tökkunum til að sjá hvernig 2 og 5 eiga að snúa þegar við erum ekki viss.
Verkefnið er tvær síður og með því að ljósrita báðu megin og brjóta í saman í helming verður til lítil bók.
Hér eru nokkur satt og ósatt verkefni sem við vorum að föndra. Krakkarnir klippa út dæmin, reikna og líma þau svo í þann dálk sem á við. Þetta eru samlagningardæmi en einnig eru einfaldar jöfnur sem þau geta spreytt sig á.
Smá kennaratrix, ef blaðið á að fara í möppu er gott að gata efri helming blaðsins eins og á myndinni hérna fyrir ofan. Gott er að benda krökkunum á að klippa niður nokkur dæmi í einu, þannig er auðveldra að halda utan um verkefnið.
Hér fyrir neðan eru blöð með samlagningu og frádrætti.
Blöðin eru með dæmum framan og aftan á og er svolítið bil á milli dæmanna ef krakkarnir vilja nota teikningar við lausn á dæmunum. Hjá okkur notuðu margir einnig kubba til að finna lausnina.
Út frá formasúpunni okkar gerðum við þetta spil sem er á myndinni hér fyrir ofan. Tveir og tveir spila saman og er hvor um sig með sitthvorn litinn og einn tening. Spilafélagarnir skiptast á að kasta teningnum og lita þrívíða formið sem kemur upp. Þegar náðst hefur að lita fjögur form í röð; lárétt, lóðrétt eða á ská þá fæst eitt stig.
Nota má eitt form úr áður litaðri línu til að fá annað stig. Þetta má sjá hjá bláa leikmanninum hér fyrir ofan en hann er með eina lárétta litaða línu og notar eitt form úr henni til að klára aðra línu á ská.
Hér er komið myndband um Fúsa Plús. Hann má finna í ýmsum útgáfum á netinu undir nafninu Gus the Plus. Við höfum notað hann við innlagnir á samlagningu, t.d. í fyrsta bekk og svo notað sögu hans til upprifjunar í öðrum bekk.
Fúsi Plús upp á vegg hjá okkur.
Þegar við sögðum krökkunum söguna af Fúsa Plús vorum við búnar að búa okkar eigin Fúsa til, til þess að hafa upp á vegg. Krakkarnir teiknuðu svo líka myndir af honum og skrifuðu orð sem tengjast samlagningu.
Þessi spjöld gerðum við upphaflega fyrir búðarleik sem sagt er frá í annarri færslu hérna á síðunni. Þau hafa reynst okkur vel og hægt er nýta þau á margvíslegan hátt og einnig vekja leikföngin áhuga hjá börnunum. Við útbjuggum okkar spjöld sjálfar og plöstuðum en það gæti verið gaman að fá krakkana í lið með sér og þau búa sjöldin til sjálf. Þau æfa sig að klippa og þjálfa fínhreyfingar í leiðinni.
Hér notum spjöldin í samlagningu, nemendur draga tvö spjöld og nota peninga við að leysa dæmið.
Upphaflega voru spjöldin gerð með tveggja stafa tölum en þegar við fórum að vinna með þriggja stafa tölur gerðum við nýja miða með hærri upphæðum. Nýju miðarnir voru svo festir á spjöldin með kennaratyggjói. Miðana má nálgast undir myndunum hér fyrir neðan.
Í þessu verkefni voru krakkanir að æfa sig með peninga og finna rétta upphæð úr peningakassanum. Þau voru þá tvö saman með nokkur spjöld og lögðu rétta upphæð á spjaldið.
Hér eru sömu spjöld en búið að setja hærri upphæðir á þau. Verkefnið er það sama að finna rétta upphæð úr peningakassanum. Við höfum bæði notað þetta verkefni á stöð í hringekju en þetta er einnig gott aukaverkefni til að grípa í þegar einhver klárar verkefni.