Þessi skemmtilegu púsl eru búin til úr morgunkorns pökkum. Við klipptum framhliðarnar af pökkunum og strikuðum svo línur á bakhliðina til að fá formin.
Í þessum púslum notuðum við þríhyrninga, en höfum líka gert þau með blönduðum formum.
Gott er að hafa línurnar langar, þegar byrjað er á púslinu.
Þetta er gott verkefni þegar verið er að vinna með formin, mögulegt er að notast við eitthvað eitt form eða hafa blöndu af formum. Þegar verið er að vinna með eitt form t.d. þrí- eða ferhyrninga þarf að velta fyrir sér hvernig strika eigi línurnar svo formin birtist. Þetta er því einnig gott samvinnuverkefni vegna umræðunar sem á sér stað á meðan það er unnið. Einnig er áhugavert að sjá hversu mismunandi útgáfur af formunum birtast.
Púslin leyna á sér og er stundum ekki eins auðvelt og maður heldur að setja þau saman aftur. Gaman er að taka tíman hversu lengi er verið að púsla þau og jafnvel hafa miða með hverju púsli til að skrá tímatökuna á. Við geymum okkar púsla í litlum zip-lock pokum. Ef magir eru með eins morgunkorns pakka er gott að setja litaða doppu á hvern púsl bita. Þá sér maður strax í hvaða poka stykkið á fara ef það finnst t.d. á gólfinu.
Í íslensku notum við oft orðasúpur og hafa krakkarnir mjög gaman að því að leysa þær. Við gerðum því talnasúpur fyrir þau til að leysa í stærðfræði. Talnasúpurnar eru þrjár með tveggja, þriggja og fjögurra stafa tölum . Þær eru hér í viðhengi fyrir neðan og þarf bara að prenta út og byrja!
Á netinu er einnig hægt að finna talnasúpur með því að leita eftir “number word search” og koma þá ýmsir möguleikar af verkefnablöðum. Að auki er hægt að finna forrit sem búa til talnasúpur sem svo mögulegt er að prenta út sjálf/ur.
Hjá okkur eru nokkur púsluspil sem ekki eru í mikilli notkun og vantar jafnvel einhverja bita inn í. Á Pinterest eru hugmyndir hvernig mögulegt að nota púsluspil á annan máta en að púsla saman myndinni. Tugir og einingar eru t.d. teiknaðar á einn púslbita og svo finnur þú töluna á öðrum bita og púslar saman, reiknisdæmi á einum púslbita og útkoman á öðrum og svo má líka púsla saman há og lágstafi í íslensku.
Ein röð úr púslinu.
Okkar hugmynd útfærðum við þannig að við notuðum þriggja stafa tölur og skrifuðum aftan á púslið. Tölurnar eru ekki í réttri röð, heldur á víð og dreif frá 90 – 1000, það er byrjað á minnstu tölunni fremst og svo þarf að finna næstu tölu og svo koll af kolli og stærsta talan kemur aftast.
Tvær raðir úr púslinu.
Við gerðum líka tvær raðir og er þá púslað út á enda og svo haldið áfram í næstu línu fyrir neðan. Það er ekkert ákveðið bil á milli talnana í þessu verkefni en það er hugmynd er að láta tölurnar hækka um t.d. 10 eða hundrað á milli púslbita.
Sá möguleiki er líka að krakkarnir gætu útbúið svona verkefni sjálf með ákveðnu bili á milli talnana. Gott ráð er að geyma hverja röð fyrir sig í umslagi eða zip-lock poka svo púslbitarnir ruglist ekki. Við notuðum verkefnið á stöð í hringekju á samt 100 töflu púslum og má finna færslu um þau hér.
Við höfum verið að vinna með tölfræði og upplýsingar og í þessu verkefni gerðu krakkarnir sín eigin súlurit. Allir byrjuðu á því að velja sér viðfangsefni til að vinna með og teiknuðu myndir inn á skífu. Margskonar viðfangsefni urðu fyrir valinu m.a. litir, form, farartæki, matur, dýr, emoji og fleira.
Verkefnið var unnið í tveimur hlutum og byrjuðum við á því að útbúa skífuna og líma hana inn í reiknibók. Skífan sem við notuðum er í verkefnahefti sem fylgir Sprota 2b og má nálgast hér. Skífan er með 6 svæðum en það er líka til skífa meðsvæðum í verkefnaheftinu.
Í næsta tíma útbjuggu þau tíðnitöflu, sem má nálgast hér, með viðfangsefninu sem þau höfðu valið (sjá á myndinni hér fyrir ofan). Eftir snéru þau bréfaklemmu á skífunni 25 sinnum og skráðu með talningarstrikum í tíðnitöfluna um leið. Að lokum gerðu þau súlurit út frá tíðnitöflunni.
Krakkarnir voru mjög áhugasamir og fannst sérstaklega skemmtilegt að velja sín eigin viðfangsefni fyrir súluritið.
Vinkona okkar minnti okkur á þetta verkefni um daginn. Það er auðvelt að grípa í það, krefst ekki mikils undirbúnings og mögulegt að framkvæma það á ýmsa vegu fyrir alla aldurshópa. Við skrifum tölu upp á töflu og krakkarnir búa til dæmi í reikningsbókina sína. Gott er að setja tvö til þrjú sýnidæmi með tölunni á töfluna, það hjálpar sumum nemendum að byrja. Við hvetjum þau til að nota hjálpargögn s.s. kubba, talnagrind eða peninga til að átta sig á tölunum og hvernig dæmi hægt er að búa til.
Þetta verkefni hentar mjög vel í þegar nemendur eru að koma á mismunandi tímum inn í kennslustund eins og eftir matartíma, íþróttir eða í stuttri kennslustund (20 mín). Oft bjóðum við þeim sem vilja koma og deila sínum dæmum með bekkjarfélögunum upp á töflu. Við köstum stundum teningum til að fá upp töluna sem við ætlum að nota, einnig finnst krökkunum mjög gaman að kasta teningum sjálf og fá þannig tölu til að vinna með.
Bakkana hér á myndinni fyrir neðan höfum við notað mikið í ýmiskonar talningaverkefni. Nú í haust hefur 1. bekkur verið að æfa talningu upp í 20. Við höfum einnig notað þá í samlagningu þar sem nemendur eru með tvo bakka, kasta töppum í þá og leggja svo saman tölurnar þar sem tapparnir lenda. Þetta höfum við líka útfært á sama hátt með margföldun. Bakkana fengum við í matvöruverslun og eru þeir undan mjólkurvörum hringina með tölustöfunum frá 1 – 26, má nálgast hér.
Í 1. bekk höfum við notað hana upp í 20 þegar við leggjum inn tölurnar frá 11 – 20. Nemendur byrja þá að raða talnalínunni á gólfið og geta einnig notað hana til að spila.
Hér er verið að spila á talnalínunni
Þegar við notum talnalínuna upp í 20 notum við einn tening en tvo þegar talanlínan er upp í 50.
Hér er notaður + og – teningur í spilnu
Við höfum einnig búið til tening með + og – merkjum sem segir til um hvort færa eigi spilakarlinn áfram eða aftur á bak. Verkefnið var notað í hringekju og unnu tveir til þrír nemendur saman. Við plöstuðum okkar talnalínur enda höfum við notað þær mikið
Á ráðstefnu Skólaþróunar síðastliðinn ágúst gáfum við gestum okkar teningaspil eftir fyrirlestur okkar. Tvær útgáfur eru af spilinu/leiknum; önnur með hundrað, tugum og einingum – þá eru notaðir 3 teningar og svo hinsvegar með tugum og einingum – en þá eru tveir teningar notaðir. Nemendur geta verið tveir og tveir saman og lagt þá saman stig í lok spilsins eða hver og einn unnið verkefnið sjálfur.
Í fyrstu tveimur köflunum í Sprota 1a er verið að æfa talningu og skrá talningarstrik. Spilin hér fyrir neðan eru góð til að æfa að strik nr. 5 sem fer á ská. Fyrra spilið er upp í þrjátíu og það seinna upp í hundrað. Spilið var á stöð í stærðfræði hringekju og spiluðu nemendur 2-3 saman, hver með eitt blað. Við settum spilið beggja vegna á blaðið þ.e. þrjátíu á annari hliðinni og hundrað hinu megin. Byrjað var á spilinu sem nær upp í þrjátíu og spilað með einum tening, spilið hefur einnig verið notað í öðrum og þriðja bekk og hefur þá verið spilað með tveimur teningum og upp í hundrað báðu megin. Hér fyrir neðan má nálgast spilin. Einnig er hægt slá inn “tally marks” á goggle og nálgast ýmis fleiri verkefni þar í gegn.
Kahoot er vefsíða þar sem hægt að útbúa allskyns spurningaleiki á auðveldan hátt. Margir geta spilað saman í einu og notuð eru snjalltæki. Við í Stærðfræðistofunni erum með leiki inni á Kahoot sem allir geta nálgast. Það þarf að ná sér í notendanafn til að skrá sig inn, það er mjög fljótlega gert. Sá sem stjórnar leiknum (kennarinn) fer inn á síðuna create.kahoot.com og er tengdur við skjávarpa svo að þátttakendur sjái spurningarnar. Þátttakendur (nemendur) fara þá inn á kahoot.it. Til að nota okkar leiki er hægt að leita eftir ,,staestofan”, stærðfræði eða eftir efnisflokkum t.d. margföldun og samlagning. Við höfum hér útbúið leiðbeiningar fyrir þá sem hafa ekki prófað Kahoot áður:
Hér á myndinni fyrir neðan var leitað eftir orðinu margföldun og komu þá upp tveir leikir.
Viðmót stjórnanda, ýtt er á play til að spila leik.Þegar búið er að velja verkefni kemur upp mynd þar sem valið er annað hvort Classic eða Team mode, við höfum notað classic og eru 2 – 3 saman með eitt tæki.
Viðmót stjórnanda og þátttakanda er ekki það sama. Stjórnandinn er með tölvuna sína tengda við skjávarpa. Næst kemur upp tala sem þátttakendur nota til að skrá sig til leiks. Þátttakendur fara inn á síðuna kahoot.it þar sem pin-númerið fyrir leikinn er skráð inn. Hver hópur velur næst nafn fyrir lið sitt og þegar það er komið birtast nöfn liðanna á skjánum hjá stjórnandanum. Hér fyrir neðan má sjá að Stærðfræðistofa hefur skráð sig inn. Þegar öll lið eru mætt til leiks ýtir stjórnandinn á start hjá sér.
Pin-númerið fyrir leikinn.
Nemendur slá inn pin-númer fyrir leikinn og búa svo til nafn á liðið sitt.
Þegar leikurinn byrjar birtist spurningin í stuttan tíma.
Næst kemur spurningin upp með fjórum svarmöguleikum fyrir þátttakendur. Einnig má sjá hversu margir eru búnir að svara hverju sinni og þá tímann sem eftir er.
Hér sjá þátttakendur svarmöguleikana.
Þátttakendur eru með snjalltæki og velja þar þá mynd sem þeir halda sé rétt svar.
Viðmót þátttakenda í snjalltæki.
Þegar allir hafa svarað kemur upp mynd sem sýnir hve margir völdu hvaða valmöguleika.
Hér má sjá dreifingu svara.
Gefin eru stig fyrir rétt svör og einnig fyrir hversu fljótt þátttakendur svara, birtist þá listi með fimm efstu þátttakendunum áður en farið er í næstu spurningu.
Hér var aðeins einn þátttakandi svo hann var að sjálfsögðu efstur.
Nemendur höfðu verulega gaman að þessum leik og var mikið fjör í stofunni. Allur hópurinn spilaði saman og voru 2 – 3 saman í liði. Þessi leikur gæti einnig hentað á stöð í hringekju og væri þá einn nemandi stjórnandi hverju sinni.