Þessa vikuna erum við að vinna með margföldun. Þetta skemmtilega kast-verkefni er á einni stöð í hringekju hjá okkur. Það er frekar einfalt í framkvæmd, það þarf eitt ílát og 10 bolta fyrir hvern hóp sem í eru 2 – 3 krakkar.

Unnið er með margföldun frá 1 – 10. Sá sem byrjar kastar 10 boltum og reynir að hitta þeim ofan í körfu. Eftir það er margfeldið af boltunum sem fóru ofan í körfuna skrifað niður, sem dæmi má nefna að í fyrstu umferð hittir nemandi 6 boltum í körfuna þá skrifar hann 6 x 1 í bókina sína. Í næstu umferð er margfaldað með 2 og svo koll af kolli. Hver skrifar í sína bók eða á blað. Þegar búnar eru 10 umferðir reiknar hver og einn út stigin sín.

Auðvelt er að flytja verkefnið út í góða veðrið og þá jafnvel nota krít til að skrá margfeldið og reikna.

Ein útgáfan í viðbót er að kríta hringi eða jafnvel nota húllahringi til að kasta inn í.
Við höfðum fengið gefins álpappír og notuðum hann í boltana okkar en ein hugmynd er að sækja pappír í endurvinnslukassann og útbúa bolta úr pappír.